Eggheimta

Þegar eggbú eru fullvaxin og eggin þroskuð er réttur tími fyrir eggheimtu.  Með ómskoðun um leggöng eru eggbúin í eggjastokkunum tæmd.  Vökvi eggbúsins er sogaður út með fínni nál og safnað í tilraunarglös sem lífeinda-/líffræðingur á rannsóknastofu tekur við.

Leitað er að eggjum í eggbúsvökvanum undir smásjá.  Eggin eru hreinsuð af blóði og vökva með sérstakri lausn. Þeim síðan safnað í ræktunarskál með ætisvökva og þau geymd í hitaskáp þar til þau verða frjóvguð.

Eggin þola illa breytingar á umhverfi, svo sem hitasveiflur og ljós.  Því þarf meðhöndlun þeirra undir smásjá að vera nákvæm og hröð.  Hver eggheimta getur skilað frá 1 eggi upp í 40 en að meðaltali eru það 8-12 egg.  Í einstaka tilvikum næst ekkert egg.