Hvernig er löggjöfin?
Lögð er áhersla á hag barnsins og rétt þess að þekkja erfðafræðilegan uppruna sinn. Sem gjafi skrifar þú undir samþykki þess að gerast eggjagjafi. Mögulegt er að draga samþykki sitt til baka fram að þeim tíma sem egg eru frjóvguð. Með samþykki þessu hefur þú engar lagalegar né fjárhagslegar skyldur gagnvart barninu, né barnið gagnvart þér. Maki í pari sem þiggur gjöf sem og einstæð kona skrifa sjálf undir samþykki þar sem þau taka á sig félagslega, fjárhagslega og lagalega ábyrgð sem foreldrar barnsins. Sjúkraskrá er haldin með hefðbundnum hætti en tilteknar meðferðarupplýsingar eru einnig færðar í sérstaka sjúkraskrá sem er geymd á sérstöku geymslusvæði í 70 ár. Í þessari
sérstöku sjúkraskrá er að finna upplýsingar sem þú hefur veitt okkur með útfylltu upplýsingablaði þar sem fram koma upplýsingar um þig ásamt myndum.
Íslensk lög tryggja gjafanum réttinn til að hafa gjöfina rekjanlega eða órekjanlega. Með rekjanlegri gjöf er barni sem getið er fyrir tilstilli gjafaeggs eða gjafasæðis gefið færi á, þegar það verður 18 ára og lögráða, að fá upplýsingar um erfðafræðilegan uppruna sinn. Þess vegna verða persónuupplýsingar um gjafa vistaðar hjá Eggja- og sæðisbanka Livio.
Í þeim tilvikum þegar barn kýs að leita upplýsinga um erfðafræðilegan uppruna sinn mun Eggja- og sæðisbanki Livio ævinlega hafa samband við þig og gefa þér færi á að undirbúa þig.
Við órekjanlega gjöf þá eru upplýsingarnar um gjafann lokaðar fyrir barnið og það getur ekki fengið upplýsingar um erfðafræðilegan uppruna..
Samkvæmt íslenskum lögum má eggjagjafi að hámarki gefa egg til tveggja fjölskyldna, en einnig er heimilt að gefa egg til para eða kvenna erlendis sem þurfa eggjagjöf.