Sæðisvinnsla

Sama dag og eggheimta er gerð þarf að skila sæðissýni. Við bjóðum upp á herraherbergi fyrir þá sem vilja framleiða sitt sýni á staðnum. Ekki er æskilegt að sýnið sé eldra en klukkustundar gamalt og síðasta sáðlát fyrir ætti að hafa verið u.þ.b. 48 tímum fyrr. Starfsmaður á rannsóknastofu tekur á móti sýninu, metur magn þess og skoðar undir smásjá með tilliti til fjölda sáðfrumna og hreyfanleika. Undir eyðublöð hér á síðunni má finna leiðbeiningar og eyðublað fyrir skil á sæðissýni.

Mikilvægt er að ná bestu sáðfrumunum úr sæðissýninu fyrir frjóvgunarmeðferð. Til þess er notuð skilvinduaðferð þar sem sýnið er sett á lagskiptan vökva og skilið niður í skilvindu. Á þann hátt eru góðar sáðfrumur aðskildar frá þeim sem eru lélegar eða hreyfingalausar. Að því loknu er hreyfanleiki og fjöldi sáðfrumna metinn aftur og frá þeirri niðurstöðu er skorið úr um hvort hefðbundna glasafrjóvgun (IVF) eða smásjárfrjóvgun (ICSI) sé líklegri til að skila árangri. Sýni fyrir tæknisæðingu er unnið á sama hátt.

Sáðfrumurnar eru geymdar í ræktunarvökva sem inniheldur mikilvæg næringarefni í hitaskáp þar sem þær jafna sig þar til nota á þær.