Að gefa egg

Get ég gefið egg ?

Konur á aldrinum 20-35 ára og ekki haldnar neinum þekktum arfgengnum sjúkdómum, kynsjúkdómum né öðrum sjúkdómum sem gætu aukið áhættu fyrir þær við eggjagjöf koma til greina sem eggjagjafar.

Get ég gefið egg ef ég er á getnaðarvörn ?

Já, konur geta gefið egg þótt þær séu á getnaðarvörn eins og pillunni eða með lykkju.

Hvað þarf að gerast áður en ég get gefið egg ?

Þú þarft að hringja í hjúkrunarfræðing hjá IVF klínikinni sem mun skrá niður grunnupplýsingar um þig og veita þér nánari upplýsingar um eggjagjöfina.

Í framhaldi af því ertu bókuð í viðtal og skoðun hjá lækni. Í viðtalinu er farið ýtarlega yfir meðferðina og gerð er skoðun þar sem tekið er ræktunar sýni frá leggöngum og leghálsi. Eftir viðtalið þarf að fara í blóðprufur til þess að kanna ástand hormóna og útiloka HIV og lifrabólgu.

Áður en meðferð hefst þarf væntanlegur eggjagjafi að fara í viðtal hjá félagsráðgjafa.

Hvað tekur meðferðin langan tíma ?

Frá því að lyfjameðferð hefst og fram að eggheimtu líða u.þ.b. 4 vikur.

Við upphaf meðferðar fer hjúkrunarfræðingur yfir meðferðarferlið og afhendir lyf sem eggjagjafi notar í meðferðinni.

Hvaða lyf þarf ég að taka ?

Bryjað er að taka inn lyf í formi nefúða og heitir Suprecur. Það hamlar framleiðslu kvenhormónanna estradíóls og prógesteróns og dregur þannig úr starfsemi eggjastokkanna. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir sjálfkrafa egglos.

Oftast er byrjað á Suprecur á 21. degi frá upphafi blæðinga. Eftir að næstu blæðingar byrja kemur þú í sónarskoðun. Ef allt er eðlilegt þá bætist við örvunarlyf sem getur verið Bemfola/Menopure/GonalF/Puregon og er því sprautað undir húð daglega í 10-12 daga. Örvunarlyfið eykur vöxt og þroska á eggbúum í eggjastokkum. Á meðan örvunarlyfið er notað eru gerðar 2-3 ómskoðanir til þess að fylgjast með eggjastokkunum.

Get ég fengið aukaverkanir af lyfjunum ?

Já, eins og á við um öll lyf geta bæði Suprecur og örvunarlyfið valdið aukaverkunum, en það gerist þó ekki hjá öllum. Algengustu aukaverkanir Suprecur eru, þyngdarbreytingar, höfuðverkur, skapbreytingar og þreyta.

Algengustu aukaverkanir örvunarlyfjanna eru, marblettir, verkir, roði, bólga og kláði á stungustað.

Hefur gjafaeggjameðferð áhrif á frjósemi mína eða eykur hættu á krabbameini seinna meir ?  

Nei, engar rannsóknir hafa sýnt fram á það.

Er ég eitthvað frá vinnu ?

Eftir að meðferð hefst þarf að koma í 3-4 sónarskoðanir en þær taka skamman tíma.

Þessar skoðanir eru þegar þér hentar best, á mánu-, miðviku- og föstudögum.

Á eggheimtudegi þarft þú að vera frá vinnu sem og 1-3 daga á eftir.